Hvað er fötlun?
Barátta fatlaðs fólks fyrir mannréttindum hefur m.a. snúið að því að breyta skilningi almennings á hugtakinu fötlun. Hér áður fyrr var læknisfræðilegur skilningur á fötlun ríkjandi, sem skilgreindi fötlun sem galla sem helst þyrfti að reyna að laga með öllum tiltækum ráðum. Félagslegur skilningur á hugtakinu fötlun er nú viðurkenndur en þá er horft til þess að hindranir í samfélaginu, bæði hvað varðar aðgengismál og viðhorf, hafa fatlandi áhrif fremur en skerðingin sjálf. Í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er unnið út frá tengslaskilningi á fötlun. Umhverfið gerir ekki alltaf ráð fyrir þeim margbreytileika sem fylgir mannfólkinu og einstaklingurinn býr ekki alltaf yfir þeirri færni sem almennt er gert ráð fyrir að hann hafi. Fötlun er því talin skapast vegna þess misræmis sem skapast þegar einstaklingur og umhverfi ná ekki að falla hvort að öðru. Tengslaskilningur á fötlun viðurkennir skerðinguna og vill draga fram þörfina fyrir viðeigandi aðlögun í umhverfinu. Í skólastarfi þarf að fjarlægja hindranir og tryggja aðgang að viðeigandi aðstoð svo fatlaðir nemendur geti verið leiðtogar í eigin lífi og virkir þátttakendur í skólasamfélaginu.