Þegar draumar rætast í skólanum
Frá áramótum 2017 hefur nemendum í Setrinu staðið til boða að stunda hestamennsku. Ævintýrið hófst með tilraunaverkefni með einum nemanda. Þegar ljóst var hversu jákvæð og uppbyggjandi samvera hestsins og barnsins voru, var ákveðið að bjóða fleirum að taka þátt. Fyrst var byrjað með einn hest í þessu verkefni, tuttugu vetra gamlan með einstaklega gott geðslag. Hann heitir Klettur og hefur svo sannarlega sýnt hversu mikill klettur hann er fyrir nemendur. Fljótlega var augljóst að fleiri nemendur þurftu á þessari stund að halda, þar sem farið er út úr skólanum og unnin líkamleg vinna í nánd við dýr og náttúru. Því bættist hún Gola við sem er grjáskjótt átta vetra meri í þetta verkefni. Hún er lítill og nettur ljúflingur sem hefur heillað börnin. Í kringum hestamennskuna læra nemendur að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Þau þurfa að temja sér þolinmæði, skipuleg vinnubrögð og yfirvegaða framkomu. Börnin byrja alltaf á því að kemba hestinum vel, gefa þeim brauð eða fóður og leggja síðan á hestinn. Nemendur sem kjósa að skella sér á hestbak fara í nokkra hringi í gerði sem er fyrir utan hesthúsið. Sumum finnst nóg að fá að koma í hesthúsið, klappa hestunum og finna traust og ró sem streymir frá þeim. Eftir að hafa farið á hestbak er gengið frá og gólfið sópað. Að því loknu er heitt kakó og kex í boði í kaffistofunni sem hressir sál og líkama. Þetta tilraunaverkefni er orðið mikilvægur þáttur í vikuskipulagi Setursins og höfum við séð hversu jákvæð áhrif þátttakan hefur haft á nemendur. Gamall draumur Setursins er hér orðin að veruleika og það er von okkar að geta haldið áfram að þróa verkefni í þessum anda.