Metnaðarfullt íþrótta- og tómstundastarf fyrir fötluð börn

Á foreldrafund í Setrinu komu Bragi Bjarnason menningar og frístundafulltrúi, Andri Már Númason forstöðumaður Frístundaklúbbs og Guðrún Linda Björgvinsdóttir stjórnarmaður í Suðra, íþróttafélagi fatlaðra. Fundurinn var vel sóttur af foreldrum en tilgangur fundarins var að ræða saman um hvernig hægt er að tryggja jafnan aðgang allra barna og ungmenna að fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi. Fötluð börn virðast flosna upp úr almennu íþróttastarfi og á sama tíma hefur Suðri,
íþróttafélag fatlaðra, ekki náð til yngri þátttakenda.

031013008020

 

 

 

 

Fram kom í máli Braga menningar- og frístundafulltrúa að oft væri það hræðsla  og óöryggi sem væri að trufla en vilji til að gera vel væri fyrir hendi. Vangaveltur voru um það hvaðan stuðningur ætti að koma, hvert þjálfarar gætu leitað eftir fræðslu og hugmyndum. Einnig hvort stuðningskerfið væri innbyggt inn í starf íþróttadeildanna eða á hendi félagsþjónustu. Foreldrar bentu á mikilvægi þess að nýta sérfræðiþekkingu sem er innan vébanda deilda ungmennafélagsins því ef aðstoðarmaður er ekki sérhæfður í íþróttagreininni getur það hindrað fullgilda þátttöku barnsins.  Guðrún Linda, stjórnarmaður í Suðra , sagði að félagið væri opið fyrir hugmyndum til að fá yngri þátttakendur til að taka þátt í starfi félagsins. Félagið á tíma í íþróttahúsinu Iðu seinnipartinn á þriðjudögum og fram kom hugmynd um að fá Ungmennafélag Selfoss í samstarf og vera með fjölbreyttar íþróttagreinar í boði. Áhugi er hjá foreldrum fyrir því að efla starf Suðra þar sem slíkt starf gefur tækifæri til þátttöku í jafningjahópi. Þá kom fram að á meðan jafnaldrar stunda sínar íþróttaæfingar eru fötluð börn frá 5. bekk  í frístundaklúbbi.  Andri Már forstöðumaður frístundaklúbbs taldi að samstarf við Suðra og ungmennafélagið  gæti eflt starfið í frístundaklúbbnum og um leið tryggt heildstæðan skóladag barnsins sem foreldrar töldu mjög mikilvægt. Guðrún Linda sagði frá reiðnámskeiði sem félagið ætlar að halda á næstunni og verulegur áhugi var að nýta það sem fyrsta skref í samstarfi við Frístundaklúbbinn. Fram kom ábending um að gera heimasíðu Suðra aðgengilega á heimasíðu ungmennafélagsins.

Ákveðið var að boða til fundar með fulltrúum ungmennafélagsins, Íþróttafélaginu Suðra og Frístundastarfs til að vinna úr þessum hugmyndum og móta metnaðarfullt íþrótta- og tómstundastarf fyrir fötluð börn í sveitarfélaginu.