Hundaklúbbur
Á skólaárinu 2016-17 hefur verið boðið uppá hundaklúbb tvisvar í viku í lykilhæfnitímum í Setrinu. Nemendur fá fræðslu um hundahald, hundategundir og allt sem snýr að því að bera ábyrgð á gæludýri. Það vill svo vel til að nokkrir starfsmenn Setursins eiga hunda sem nemendur hafa notið góðs af. Kennslustundin hefst á gönguferð heim til starfsmanns þar sem hundarnir bíða spenntir eftir heimsókn frá nemendum. Farið er með hundana í göngutúr um hverfið og nemendur skiptast á að teyma hundana. Nemendum er kennt hvernig við göngum með hund í taum og að við hreinsum alltaf upp eftir hundinn. Þessir tímar gefa tækifæri til þess að ræða á persónulegri nótum það sem liggur á hjarta nemanda: ,,Mér finnst betra að tala við hundana heldur en fólk því ég get sagt það sem mig langar til án þess að vera gagnrýndur‘‘.