Menntaverðlaun Suðurlands
Það er okkur í Sérdeild Suðurlands mikill heiður að taka við Menntaverðlaunum Suðurlands.
Heiðurinn sem þeim fylgir, veitist fjölda manns sem að starfinu koma.
Kennarar, þroskaþjálfar, stuðningsfulltrúar, ráðgjafar og aðrir sem starfa við Setrið, foreldrar og aðstandendur nemendanna og svo ekki síst nemendurnir sjálfir og samstarfsfólk í heimaskólum þeirrra sem eiga þennan heiður í sameiningu.
Við höfum lagt áherslu á einstaklingsmiðað nám og skóla fyrir alla, viljað koma til móts við hvern einstakling á hans forsendum og skapa hverjum nemenda bestu aðstæður til að þroskast og dafna. Lagt áherslu á að allir eru einstakir og enginn nær að þroskast nema í samskiptum og samspili við aðra.
Við gerum okkur betur og betur grein fyrir því, hve mikilvægt það er, að umhverfið taki tillit til einstaklingsins og aðlagi sig að honum. Það er okkar hlutverk, að skapa umhverfið, sem einstaklingarnir mótast af og þroskast í. Því meiri sem fjölbreytileiki mannlífsins er, því mikilvægara er að við höfum þá sýn, að það sé sjálfsagt, að samfélagið mótist af þeim einstaklingum, sem það mynda.
Þessi nálgun, og þessi sýn, felur í sér, talsverða áskorun á hverjum skóladegi. Við höfum engu að síður þá bjargföstu trú, að við séum á réttri leið, og þó svo að verkefnin séu á stundum ansi flókin og margslungin, hefur okkur tekist með samstilltu átaki, að þoka starfinu eftir þessari braut.
Okkar hlutverk hefur verið að leiða saman alla þá sem koma að þjónustu við nemendur og stuðla að árangursríkri teymisvinnu foreldra, skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu.
Það er afskaplega gefandi, að starfa við að móta einstaklinga framtíðarsamfélagsins, að taka þátt í þroska þeirra og sjá þá vaxa úr grasi og verða að fulltíða einstaklingum. Því er samt ekki að leyna, að þær stundir koma í störfum okkar að við þurfum að minna okkur á hve gefandi starfið okkar er.
Á þeim stundum, er mikilvægt fyrir okkur öll, að finna fyrir þeim stuðningi við störf okkar, sem Menntaverðlaun Suðurlands sannarlega eru.
Við erum jafnframt stollt yfir þeirri virðingu sem menntun nemenda okkar er sýnd.
Kærar þakkir