Setrið Sunnulækjarskóla

Þegar draumar rætast í skólanum

Frá áramótum 2017 hefur nemendum í Setrinu staðið til boða að stunda hestamennsku. Ævintýrið hófst með tilraunaverkefni með einum nemanda. Þegar ljóst var hversu jákvæð og uppbyggjandi samvera hestsins og barnsins voru, var ákveðið að bjóða fleirum að taka þátt. Fyrst var byrjað með einn hest í þessu verkefni, tuttugu vetra gamlan með einstaklega gott geðslag. Hann heitir Klettur og hefur svo sannarlega sýnt hversu mikill klettur hann er fyrir nemendur. Fljótlega var augljóst að fleiri nemendur þurftu á þessari stund að halda, þar sem farið er út úr skólanum og unnin líkamleg vinna í nánd við dýr og náttúru. Því bættist hún Gola við sem er grjáskjótt átta vetra meri í þetta verkefni. Hún er lítill og nettur ljúflingur sem hefur heillað börnin. Í kringum hestamennskuna læra nemendur að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Þau þurfa að temja sér þolinmæði, skipuleg vinnubrögð og yfirvegaða framkomu. Börnin byrja alltaf á því að kemba hestinum vel, gefa þeim brauð eða fóður og leggja síðan á hestinn. Nemendur sem kjósa að skella sér á hestbak fara í nokkra hringi í gerði sem er fyrir utan hesthúsið. Sumum finnst nóg að fá að koma í hesthúsið, klappa hestunum og finna traust og ró sem streymir frá þeim. Eftir að hafa farið á hestbak er gengið frá og gólfið sópað. Að því loknu er heitt kakó og kex í boði í kaffistofunni sem hressir sál og líkama. Þetta tilraunaverkefni er orðið mikilvægur þáttur í vikuskipulagi Setursins og höfum við séð hversu jákvæð áhrif þátttakan hefur haft á nemendur. Gamall draumur Setursins er hér orðin að veruleika og það er von okkar að geta haldið áfram að þróa verkefni í þessum anda.


Hundaklúbbur

Á skólaárinu 2016-17 hefur verið boðið uppá hundaklúbb tvisvar í viku í lykilhæfnitímum í Setrinu. Nemendur fá fræðslu um hundahald, hundategundir og allt sem snýr að því að bera ábyrgð á gæludýri. Það vill svo vel til að nokkrir starfsmenn Setursins eiga hunda sem nemendur hafa notið góðs af. Kennslustundin hefst á gönguferð heim til starfsmanns þar sem hundarnir bíða spenntir eftir heimsókn frá nemendum. Farið er með hundana í göngutúr um hverfið og nemendur skiptast á að teyma hundana. Nemendum er kennt hvernig við göngum með hund í taum og að við hreinsum alltaf upp eftir hundinn. Þessir tímar gefa tækifæri til þess að ræða á persónulegri nótum það sem liggur á hjarta nemanda: ,,Mér finnst betra að tala við hundana heldur en fólk því ég get sagt það sem mig langar til án þess að vera gagnrýndur‘‘.

Skólasetning

Skólasetning í Setrinu er í samræmi við skólasetningu í Sunnulækjarskóla:

Nemendur í 1. – 4. bekk mæta kl. 9.00.

Nemendur í 5. – 10. bekk mæta kl. 11.00.

 

Upplýsingabréf í skólabyrjun

Menntaverðlaun Suðurlands

IMG_0042Það er okkur í Sérdeild Suðurlands mikill heiður að taka við Menntaverðlaunum Suðurlands.

Heiðurinn sem þeim fylgir, veitist fjölda manns sem að starfinu koma.

Kennarar, þroskaþjálfar, stuðningsfulltrúar, ráðgjafar og aðrir sem starfa við Setrið,  foreldrar og aðstandendur nemendanna og svo ekki síst nemendurnir sjálfir og samstarfsfólk í heimaskólum þeirrra sem eiga þennan heiður í sameiningu.

Við höfum lagt áherslu á einstaklingsmiðað nám og skóla fyrir alla, viljað koma til móts við hvern einstakling á hans forsendum og skapa hverjum nemenda bestu aðstæður til að þroskast og dafna. Lagt áherslu á að allir eru einstakir og enginn nær að þroskast nema í samskiptum og samspili við aðra.

Við gerum okkur betur og betur grein fyrir því, hve mikilvægt það er, að umhverfið taki tillit til einstaklingsins og aðlagi sig að honum. Það er okkar hlutverk, að skapa umhverfið, sem einstaklingarnir mótast af og þroskast í. Því meiri sem fjölbreytileiki mannlífsins er, því mikilvægara er að við höfum þá sýn, að það sé sjálfsagt, að samfélagið mótist af þeim einstaklingum, sem það mynda.

Þessi nálgun, og þessi sýn, felur í sér, talsverða áskorun á hverjum skóladegi. Við höfum engu að síður þá bjargföstu trú, að við séum á réttri leið, og þó svo að verkefnin séu á stundum ansi flókin og margslungin, hefur okkur tekist með samstilltu átaki, að þoka starfinu eftir þessari braut.

Okkar hlutverk hefur verið að leiða saman alla þá sem koma að þjónustu við nemendur og stuðla að árangursríkri teymisvinnu foreldra, skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu.

Það er afskaplega gefandi, að starfa við að móta einstaklinga framtíðarsamfélagsins, að taka þátt í þroska þeirra og sjá þá vaxa úr grasi og verða að fulltíða einstaklingum.  Því er samt ekki að leyna, að þær stundir koma í störfum okkar að við þurfum að minna okkur á hve gefandi starfið okkar er.

Á þeim stundum, er mikilvægt fyrir okkur öll, að finna fyrir þeim stuðningi við störf okkar, sem Menntaverðlaun Suðurlands sannarlega eru.

Við erum jafnframt stollt yfir þeirri virðingu sem menntun nemenda okkar er sýnd.

Kærar þakkir

Gjöf frá Kiwanisklúbbnum Jörfa í Reykjavík

kiwanis 1bSérdeild Suðurlands, Setrið Sunnulækjarskóla fékk nýlega styrk frá Kiwanisklúbbnum Jörfa í Reykjavík. Um er að ræða 250.000 kr. sem nýta á til kaupa á tækjabúnaði og námsgögnum.

Kristín Björk Jóhannsdóttir, deildarstjóri, veitti styrknum viðtöku í vikunni og kynnti starfsemina í Setrinu.

Við færum félögum í Kiwanisklúbbnum Jörfa okkar bestu þakkir fyrir veglega gjöf.

 

Sjá allar fréttir